Innlent

Upphaf árs miðað við sumardaginn fyrsta áður fyrr

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Á sumardaginn fyrsta.
Á sumardaginn fyrsta. MYND/Heiða Helgadóttir

Á morgun fagna Íslendingar sumri svo sem alsiða er að gera fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Löngum hefur þó viljað loða við þennan dag annars konar veður en kennt er við sumar, blíðu og yl enda virðast veðurfræðingar landsins sammála um að skúraveður verði á morgun, a.m.k. á suðvesturhorninu en gert er ráð fyrir bjartara veðri norðan heiða.

Válynd veður nálægt þessum tímamörkum þurfa þó ekki að tákna illt eitt en þjóðtrúin boðar gott sumar frjósi vetur og sumar saman, þ.e.a.s. fari hiti niður fyrir frostmark aðfaranótt fyrsta sumardags. Í riti Árna Björnssonar þjóðháttafræðings, Sögu daganna, segir að hvarvetna hafi til forna verið fylgst með því hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Hafi það yfirleitt verið talið góðs viti og auk þess álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafnþykkur ísskáninni á vatninu. „Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns," skrifar Árni.

Sumar og vetur áður einu misserin

En hvar liggja rætur þessa kærkomna frídags flestra vinnandi Íslendinga? Á Vísindavef Háskóla Íslands má finna ágætan fróðleik er lýtur að því. Að sögn vefjarins var árinu hér á landi skipt í tvö nær jafnlöng misseri áður en rómverska tímatalið tók gildi eftir miðja 11. öld. Þetta voru vetur og sumar. Vetrarmisserið hófst á laugardegi en sumarið á fimmtudegi eins og enn er.

Enn fremur greinir vefurinn frá því að þótt hvergi hafi það verið sagt berum orðum virðist hafa verið algengt að fyrsti sumardagur væri álitinn upphaf ársins, sæist þetta á því að aldur fólks hafi að jafnaði verið talinn í vetrum og væri svo enn með aldur húsdýra. Hafi hátíðleiki dagsins stafað af þessu og væri t.a.m. vitað um sumargjafir hér á landi a.m.k. fjórum öldum áður en jólagjafir urðu tíðkanlegar. Þá sem nú var fyrsti dagur sumars frídagur og fengu börn að fara milli bæja til að leika sér við nágranna sína. Segir á Vísindavefnum að fyrsti sumardagur hafi einnig verið helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur. „Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á," segir á vefnum.

„Ungmennafélögin á Íslandi gerðu sumardaginn fyrsta að helsta hátíðisdegi sínum eftir aldamótin 1900 og árið 1921 var hann gerður að stuðningsdegi fyrir börn í Reykjavík og eftir það oft nefndur barnadagurinn."

Upp á hvaða dag ber sumardaginn fyrsta?

Á heimasíðu Almanaks Háskóla Íslands er að finna ítarlegar upplýsingar um hvernig finna megi upp á hvaða dag sumardaginn fyrsta ber. Dagurinn er fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl og getur því, að sögn almanaksins, borið upp á dagana 19. - 25. apríl. Til að ákvarða daginn nákvæmlega þarf að þekkja svokallaðan aðfaradag viðkomandi árs, þ.e.a.s. þann vikudag sem er síðasti dagur ársins á undan.

Er svo beitt fingrarími, þannig að fingri er skipt í sjö hluta, framlið, miðlið og upplið, fingurtopp og framlið, miðlið og upplið hinum megin á fingrinum. Liðirnir svara til hvers vikudags og er mánudagur innanverður framliður, þ.e. þar sem fingrafarið er. „Þegar aðfaradagur ársins er þekktur, er hægt að finna sumardaginn fyrsta á þann hátt að byrja að telja á þeim fingurstað sem svarar til aðfaradagsins og telja þar fyrstu hugsanlegu dagsetninguna (19. apríl). Síðan er talið venjulegan hring (öfugan hring) þar til komið er á fingurtopp. Sú dagsetning sem þar lendir gefur þá sumardaginn fyrsta," segir á síðu almanaksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×