Innlent

Ekki klókt útspil hjá ráðherra

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir ákvörðun fjármálaráðherra að stefna ljósmæðrum fyrir ólögmætar uppsagnir, geta leitt til stigmögnunar deilunnar og að ákvörðunin sé ekki heppileg á þessum tímapunkti.

Mikil reiði kom fram á félagsfundi ljósmæðra í gærkvöldi yfir því að Árni Mathiesen fjármálaráðherra skuli hafa stefnt Ljósmæðrafélaginu fyrir ólöglegar uppsagnir ljósmæðra í sumar og krefjist þess að þær verði dæmdar ólögmætar. Uppsagnirnar fara að koma til framkvæmdar. Það blæs því ekki byrlega fyrir næsta samningafund deilenda, sem boðað hefur verið til í dag.

Utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segir það að stefna ljósmæðrum ekki klókt útspil í deilu sem þegar er stál í stál. „Þetta getur leitt til stigmögnunar deilunnar og það er aldrei gott þó að menn telji sig hafa réttinn sín megin. Og mér skilst raunar að þetta hafi legið fyrir frá því í júlí að þetta gæti orðið en þetta er ekki heppilegt á þessum tímapunkti," sagði Ingibjörg eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

25 prósenta hækkun launa of stórt skref í einum áfanga

Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar tekur undir með formanni sínum á Vísi þar sem hún segir málsóknina vond tíðindi og óheppilega vendingu í málinu, sem ekki sé til þess fallin að leysa deiluna. Ingibjörg Sólrún segir vilja innan ríkisstjórnarinnar að bæta kjör ljósmæðra.

„Ég held að ég geti talað fyrir hönd allra í ríkisstjórninni þegar ég segi að það er skilningur á því í ríkisstjórninni að þær þurfi að fá ákveðna launaleiðréttingu. Það er ekki þar með sagt að 25 prósent hækkun á launum sé það sem koma skal vegna þess að það eru margar kvennastéttir sem eru því miður vanhaldnar í launum og við getum ekki tekið svona stór skref í einum áfanga eins og þarna er um að ræða. Þannig að það þarf að finna einhverja lendingu í þessu þannig að það sé ákveðin leiðrétting en þó ekki þannig að það setji eiginlega öll okkar áofrm úr skorðum," segir utanríkisráðherra.

Mikið annríki er á fæðingadeild Landsspítalans og þurfa sumar sængurkonur að hafast við í rúmum frammi á gangi, aðrar eru sendar heim nokkrum klukkustundum eftir fæðingu, og keisaraskurðum hefur verið frestað.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×