Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir heimilisofbeldi

Karlmaður fékk í gær í Héraðsdómi Norðurlands eystra fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að ganga í skrokk á sambýliskonu sinni á heimili þeirra.

Samkvæmt ákæru mun maðurinn hafa ráðist á konuna þar sem hún var sofandi í rúmi þeirra og kýlt hana ítrekað. Svo reif hann hana fram úr rúminu og hrinti á fatahengi og sparkaði í hana liggjandi í hörðum kuldaskóm.

Konan komst inn í stofu þar sem barsmíðarnar héldu áfram og barði hann hana í andlitið, þannig að hún fékk miklar blóðnasir. Hann elti hana svo inn á bað þar sem hún hugðist stöðva blóðrennslið og hélt áfram að berja hana. Barsmíðarnar héldu svo áfram inni í herbergi dóttur konunnar og linnti árásinni ekki fyrr en hún komst aftur inn í svefnherbergi þeirra og náði að læsa að sér.

Í atganginum hlaut konan áverka fyrir ofan auga, eymsli á hnakka, nefi, rófubeini, hnéskel og vinstra kinnbeini ásamt því að merjast á nokkrum stöðum á líkamanum.

Dómurinn komst að því að lýsing í ákæru á atlögu mannsins væri trúverðug og var hann því sakfelldur samkvæmt ákæru. Hins vegar segir dómurinn að árásin hafi ekki valdið verulegum líkamlegum afleiðingum en sé metin miklu grófari en ella vegna tengsla hans og konunnar. Var fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi talið hæfileg refsing vegna þess og þess að maðurinn hefði gert sér far um að bæta ráð sitt með því að fara í áfengismeðferð og halda bindindi.

Auk þessa var maðurinn dæmdur til að greiða konunni rúmar 600 þúsund krónur í bætur fyrir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×