Innlent

Meirihluti og minnihluti bókuðu saman gegn Ólafi

MYND/GVA

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna sameinuðust í gær í bókun á borgarstjórnarfundi vegna tillögu Ólafs F. Magnússonar.

Ólafur hafði lagt fram þá tillögu að ekki yrði unnin frekari skipulagsvinna þar sem verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina væri höfð að leiðarljósi á meðan óvissa ríkti um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Tillagan var felld með 14 atkvæðum gegn einu líkt og önnur tillaga sem Ólafur lagði fram fyrir tveimur vikum um að aftur yrði kosið um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Eftir að tillaga Ólafs var felld í gær lét hann bóka að borgarfulltrúar allra framboða nema F-listans sett sínar áherslur í skipulagsmálum á hærri stall en þau brýnu öryggis-, heilbrigðis- og samgöngusjónarmið sem mæltu eindregið gegn brottflutningi flugvallarins úr Vatnsmýri.

Aðrir borgarfulltrúar létu hins vegar bóka að afgreiðsla tillögunnar tæki mið af þeirri miklu vinnu sem hefði farið fram á vettvangi borgarstjórnar um nauðsynlegt heildarskipulag fyrir þetta svæði, óháð staðsetningu innanlandsflugvallar. „Borgarstjórn, borgarráð og önnur fagráð borgarinnar hafa ítrekað lýst yfir ánægju með þá hugmyndavinnu sem vinningstillagan felur í sér. Í tillögunni felast afar mikilvæg sjónarmið að því er varðar umhverfis- og samgöngumál og aukna möguleika á sjálfbærri borgarþróun til framtíðar. Að auki samþykkti borgarráð samhljóða í febrúar sl. að vinna að skipulagi á þessu svæði á grundvelli tillögunnar, sérstaklega hvað varðar jaðarsvæðin þar sem hægt er að skipuleggja íbúðabyggð óháð staðsetningu flugvallarins. Um þessa málsmeðferð hefur ríkt mikil og góð samstaða og sátt á vettvangi borgarstjórnar, enda felst í henni ábyrg afstaða til þessa stóra framtíðarverkefnis," segir í bókuninni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×