Innlent

Tveir fluttir alvarlega slasaðir með TF-Líf eftir bílslys á Holtavörðuheiði

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
MYND/GVA

Alvarlegt bílslys varð á áttunda tímanum í kvöld. Beðið var um aðstoð Landhelgisgæslunnar og var TF-Líf send á staðinn. Þyrlan flutti þaðan tvo slasaða á Landspítalann í Fossvogi. Þeir eru alvarlega slasaðir en líðan þeirra er stöðug.

Hjá lögreglunni í Borgarnesi fengust þær upplýsingar að slysið átti sér stað er jeppabifreið valt af heiðinni. Þrír karlmenn voru í bifreiðinni og var sá þriðji fluttur með sjúkrabíl á heilsugæsluna í Borgarfirði. Mennirnir eru allir af austur-evrópskum uppruna.

Samkvæmt Ófeigi Þorgeirssyni, vakthafandi lækni á bráðamóttökunni í Fossvogi, hlutu þeir sem fluttir voru með þyrlunni alvarlega áverka en líðan þeirra er stöðug og þeir með meðvitund. Verið er að rannsaka líðan hinna slösuðu nánar og gat Ófeigur ekki tjáð sig um það hvort þeir tveir sem alvarlegast slösuðust yrðu á bráðamóttökunni í nótt eða fluttir annað.

Lögreglan í Borgarnesi telur líkur á að um ölvunarakstur hafi verið að ræða og er málið í rannsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×