Innlent

Fjöldaganga gegn umferðarslysum á fimmtudag

Efnt verður til fjöldagöngu gegn umferðarslysum annað árið í röð vegna fjölda áskorana. Fimmtán létust og 195 slösuðust alvarlega í umferðinni á síðasta ári.

Hópur hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum efnir á ný til fjöldagöngu gegn umferðarslysum annað árið í röð. Hópur sérfræðinga sem kemur iðulega að umferðarslysum og afleiðingum þeirra tilkynnti þetta á blaðamannafundi fyrir utan Landspítalann í Fossvogi fyrir stundu.

Markmið göngunnar er að votta fórnarlömbum slysa og aðstandendum þeirra samúð og stuðning og vekja almenning til umhugsunar. Um fimm þúsund manns tóku þátt í göngunni í fyrra en árið 2006 lést 31 í umferðinni og 153 slösuðust alvarlega.

Gangan hefst næsta fimmtudag klukkan 16.30 á lóð Landspítalans við Hringbraut og endar svo við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi. 195 manns slösuðust alvarlega í umferðarslysum í fyrra og 15 manns létust. Rauðum og svörtum blöðrum verður sleppt við lok göngunnar til minningar um þá sem létust í umferðinni og til að sýna fórnarlömbum alvarlegra umferðarslysa samhug og samstöðu,.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×