Innlent

Sjö í fangageymslum á höfuðborgarsvæðinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Sjö manns gistu fangageymslur lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt auk þess sem tveir voru teknir við akstur grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna og sá þriðji grunaður um ölvun við akstur.

Lögregla sagði töluvert hafa verið um ölvun og margir úti að skemmta sér enda einmuna veðurblíða í höfuðborginni í nótt.

Lögreglan á Akureyri átti nokkuð annríkt í nótt en þar var tilkynnt um þrjár líkamsárásir auk þess sem töluvert var um að fólk kvartaði undan hávaða, reyk og óþef frá ökumönnum sem þreyttu svonefnda „burn-out"-keppni á bifreiðum sínum á Akureyrarvelli. Þá var maður sem dró upp hníf í samkvæmi færður á lögreglustöð þar sem hann framvísaði veiðihníf. Eitthvað var um skemmdarverk í bænum, rúða var brotin og skemmdir unnar á umferðarskilti.

Á Selfossi voru tveir teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í Vestmannaeyjum var björgunarbáturinn Þór ræstur út til að fylgja skútu sænskra hjóna til hafnar þar. Fólkið hafði lagt í haf frá Eyjum en ákveðið að snúa þangað aftur þegar því leist ekki á veðurspár. Var vindur þá orðinn mikill og hafði skútan vart á móti veðrinu svo skipverjar kölluðu eftir aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×