Innlent

Thelma Ásdísardóttir: Fæ sting þegar ofbeldi er verðlagt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Thelma Ásdísardóttir vill skýr skilaboð til samfélagsins. Mynd/ Stefán.
Thelma Ásdísardóttir vill skýr skilaboð til samfélagsins. Mynd/ Stefán.

„Stjórnvöld og dómsvaldið þurfa að senda skýr skilaboð til samfélagsins um að kynferðisafbrot verði ekki liðin," segir Thelma Ásdísardóttir, starfskona Stígamóta. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi mann í fjögurra ára fangelsi í síðustu viku fyrir kynferðisbrot gegn sjö börnum. Þá var hann dæmdur til að greiða þolendunum miskabætur, allt upp í tvær milljónir króna.

Thelma segir að sér finnist dómar í kynferðisbrotamálum almennt vera allt of lágir. Þessi dómur sé hins vegar í þyngri kantinum miðað við það sem hafi tíðkast. Reynslan sýni að upplifun af svona ofbeldi geti haft alvarlegar afleiðingar til langs tíma.

„Dómskerfið hefur verið að stíga ágætis skref í kynferðisbrotamálum. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi þar til dómur féll og ég held að það sé mjög jákvætt," segir Thelma í samtali við Vísi.

Thelma segist vera þeirrar skoðunar að tilgangurinn með þungum dómum í kynferðisafbrotamálum sé ekki eingöngu sá að refsa mönnunum heldur að senda skýr skilaboð út í samfélagið um að afbrot af þessu tagi verði ekki liðin. Menn sem brjóti af sér með þessum hætti skilji eftir sig slóð af hörmungum.

"Varðandi bætur að þá fæ ég alltaf svolítinn sting þegar ég heyri að það sé verið að verðleggja ofbeldið," segir Thelma. Hún segir hins vegar að þegar bætur séu dæmdar til brotaþola sé það ákveðin viðurkenning á því að brotið hafi valdið þolandanum skaða. "Mér finnst það jákvætt að því leyti til," segir Thelma. Thelma segir jafnframt að tryggja þurfi að þolendur fái bætur greiddar þó að gerendur séu ekki borgunarmenn fyrir bótunum.

Þá segir Thelma að það sé mjög mikilvægt að þolendunum sé tryggð sú þjónusta sem í boði er. Þá þurfi brotamenn einnig að fá nauðsynlega aðstoð.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×