Lífið

Íslendingar fögnuðu í kóngsins Köbenhavn

Fjölmargir Íslendingar komu saman á Café Blasen á meðan að leikur Spánverja og Íslendinga stóð yfir. MYND/Sigurður Máni
Fjölmargir Íslendingar komu saman á Café Blasen á meðan að leikur Spánverja og Íslendinga stóð yfir. MYND/Sigurður Máni

Fjölmargir Íslendingar komu saman á barnum Café Blasen í Kaupmannahöfn til að horfa á undanúrslitaleik Spánverja og Íslendinga í dag. Þegar staðurinn opnaði í hádeginu var kominn hópur af fólki sem beið óþreyjufullt eftir leiknum, að sögn Sigurðar Mána Helgusonar eiganda Café Blasen.

,,Staðurinn tekur sirka 60 manns en það var troðið út af dyrum í dag og þegar að við töldum í lokin voru yfir 90 hausar á svæðinu, segir Sigurður Máni.

Fólk fyrir utan Café Blasen í dag. Fjölmargir Íslendingar komu saman á barnum á meðan að leikur Spánverja og Íslendinga stóð yfir. MYND/Sigurður Máni

Stemmningin á meðan að á leiknum stóð var ótrúleg, að sögn Sigurðar Mána. ,,Sem eigandi og íþróttaaðdáandi sem hefur farið á nokkra leiki í ensku deildinni þá hef ég aldrei upplifað annað eins. Samlandar okkar létu alla aðra stuðningsmenn líta út fyrir að vera kettlingar. Starfsmenn í fyrirtækjum í nágrenninu gerðu sér leið til að sjá hvað var í gangi. Stemmningin var sem sagt ólýsanleg."

Sigurður Máni segir að Cafá Blasen opni á slaginu klukkan níu á sunnudagsmorgun en þá hefst leikurinn á dönskum tíma. ,,Það er pæling yfir höfuð hvort við lokum. Svo er spurning hvort að fólk mæti ekki bara beint af djamminu með morgunmatinn með sér. Það eru allir velkomnir og áfram Ísland!"
























Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.