Innlent

Hætt við stækkun í Straumsvík og álveri á Bakka frestað

Rio Tinto Alcan er hætt við fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík. Einnig er ljóst að fyrirhuguð bygging álvers á Bakka verður ekki á dagskrá næstu árin. Landsvirkjun og Þeistareykir hf. hafa samþykkt að ganga til könnunarviðræðna við áhugasama orkukaupendur.

Jacynthe Côté, forstjóri Rio Tinto Alcan, tilkynnti Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra þá ákvörðun á miðvikudag að ekkert yrði af fjörutíu þúsund tonna stækkun álversins í Straumsvík. Fyrirtækið ætlaði að stækka álverið á næsta ári innan byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi Hafnarfjarðar. Framleiðslugeta álversins átti þannig að fara úr 185 þúsund tonnum í 225 þúsund tonn.

Mjög hefur verið horft til þessarar framkvæmdar til að slaka á núverandi efnahagskreppu. Töluverðar breytingar fylgja stækkun sem hefði þýtt atvinnu fyrir töluvert marga iðnaðarmenn, verkfræðinga og hönnuði á verktímanum. Ákvörðun álrisans getur einnig sett áætlanir Landsvirkjunar um Búðarhálsvirkjun í uppnám og þar með gagnaver Verne Holding við Keflavíkurflugvöll sem hafði skrifað undir samning um orku frá virkjuninni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur álfyrirtækið Alcoa einnig ákveðið að fresta byggingu álvers við Bakka í nokkur ár. Fyrirtækið mun halda áfram með mat á umhverfisáhrifum vegna álversins og hefur áhuga á svæðinu til uppbyggingar síðar.

Landsvirkjun og Þeistareykir hf. hafa samþykkt að ganga til könnunarviðræðna við fyrirtæki sem hafa áhuga á þeirri orku sem Alcoa hafði tryggt sér með viljayfirlýsingu við Landsvirkjun. Viljayfirlýsingin rann út 1. nóvember þegar ekki náðist samkomulag um þátttöku álfyrirtækisins í kostnaði við rannsóknaboranir. Þetta er með vitund Alcoa á Íslandi. Ákvörðunin um könnunarviðræður við aðra útilokar ekki að Alcoa geti tryggt sér orkuna, sækist fyrirtækið eftir því. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×