Innlent

Telur ekki þörf á endurskoðun fjárlaga

MYND/GVA

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segist ekki enn hafa séð þær forsendur sem kalli á endurskoðun á grunni fjárlaga þessa árs umfram það sem hefðbundið er þegar unnið sé að fjáraukalögum að hausti. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Birkir benti á nýleg svör Seðlabankans við spurningum Framsóknarflokksins um efnahagsmál en þar gæti að líta ádrepu á ríkisstjórnina. Sagði Birkir Jón forsendur fjárlaga „mölbrostnar" og spurði ráðherra hvort hann hygðist endurskoða forsendur þeirra.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði framsóknarmenn velja úr svörum Seðlabankans og gagnrýndi að þeim fyndist sem það væru bara fjárlög þessa árs sem hefðu valdið þenslu síðustu ára, ekki til að mynda hækkun á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs eða skattalækkanir. Samkvæmt þessu hefði engin þensla orðið fyrr en Framsóknarflokkfurinn hefði farið úr ríkisstjórn í fyrra.

Fjármálaráðherra sagði enn fremur að í svari Seðlabankans segði ekki að ákvarðanir í fjárlögum þessa árs hefðu verið rangar. Ef draga ætti ályktanir af svörum Seðlabankans þá ætti ríkissjóður að draga úr umsvifum á þessu ári. Hann væri hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það ætti að gera og spurði hann framsóknarmenn hvort þeir teldu það skynsamlegt. Sagðist hann enn ekki hafa séð forsendur sem kölluðu á endurskoðun á grunni fjárlaga umfram það sem hefðbundið væri þegar unnið væri að fjáraukalö0gum fyrir haustið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×