Innlent

Jóhann og Harald greinir á um framtíðarsýn lögreglumála

Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum
Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum

Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist ekki geta tekið undir margt af því sem Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri viðrar í formála nýrbirtrar árskýrslu embættisins fyrir síðasta ár.

Í formálanum víkur Haraldur að hugmyndum sínum um að lögreglustjóraembættum verði fækkað og að fjárveitingar til lögreglumála færist til embættis Ríkislögreglustjóra sem ráðstafar þeim til lögreglustjóra og löggæsluverkefna eftir áherslum á hverjum tíma.

Jóhann segir að sér hugnist ekki hugmyndir um frekari miðstýringu í löggæslumálum. ,,Að allt vald og öll stjórnun lögreglumála á landinu verði færð inn á skrifstofu við Skúlagötu er ekki sú framtíðarsýn sem ég hef," segir Jóhann.

Hann ítrekar að samræmingar og eftirlitshlutverk Ríkislögreglustjóra sé mikilvægt. ,,Það þarf hins vegar að marka skýrari línu á milli verkefna Ríkislögreglustjóra annars vegar og lögregluembættanna hins vegar."

Jóhann segir engin rök fyrir því að miðstýra öllum lögregluembættum frá Reykjavík. ,,Ekki frekar en það eru rök fyrir því að miðstýra öllum skólum eða öllum sjúkrahúsum frá Reykjavík."

Á meðal hugmynda ríkislögreglustjóra er að lögreglustjórar hafi ekki ákæruvald eins og þeir gera nú. Jóhann segist algjörlega andvígur þeirri hugmynd enda hefur að hans mati nálægð lögregluembætta og ákæruvalds gefist vel.












Tengdar fréttir

Vill stýra fjárveitingum til lögreglustjóra

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri vill fækka lögreglustjóraembættum enn frekar og færa fjárveitingar til lögreglumála til Ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu Ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×