Innlent

Vilhjálmur Þ: Allir sammála um að REI verði ekki í áhættufjárfestingum

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, segir fulla einingu í meirihlutanum að takmarka starfsemi REI við ráðgjöf og þróunarverkefni, sem ekki fylgi fjárhagsleg áhætta. Um þetta hafi tillaga meirihluta stjórnar OR kveðið í gær.

Vilhjálmur segir jafnframt í samtali við Vísi að stefna meirihlutans sé að að þekking starfsmanna REI og Orkuveitunnar verði áfram nýtt til ráðgjafaþjónustu í þágu fyrirtækja á sviði jarðhitaverkefna og umhverfisvænna orkugjafa samkvæmt sérstöku samkomulagi. "Það er skýrt að REI muni ekki fara í áhættufjárfestingar," segir Vilhjálmur.

Hann segir að stefna meirihlutans sé skýr en öðru máli gegni um minnihlutann. "Það væri nær að spyrja minnihlutann undir forystu Dags B. Eggertssonar og Svandísar Svavarsdóttur um stefnu þeirra í málefnum REI. Fullltrúar þeirra í stjórn OR samþykktu í nóvember síðastliðnum þegar þau voru í meirihluta, að að heimila REI þáttöku í einkavæðingarferli orkufyrirtækis á Filipseyjum og skuldabinda REI þannig um 12 til 14 milljarða króna. Hver er nákvæmlega stefna þeirra í dag í málefnum REI?" spyr Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×