Innlent

Utanríkisráðherra segir að íhuga verði alvarlega aðild að ESB

Utanríkisráðherra segir að þingmenn verði að íhuga alvarlega aðild að Evrópusambandinu ætli þeir sér ekki að vera úr takti við almenning. Ný skoðanakönnun sýnir að tæplega sjötíu prósent þjóðarinnar vill hefja undirbúning að umsókn í ESB.

Spurt var í skoðanakönnuninni sem Fréttablaðið gerði hvort ríkisstjórnin eigi að hefja undirbúnig að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Meirihlutastuðningur er við málið meðal kjósenda allra flokka nema Frjálslyndra. Mestur stuðningur við undirbúning umsóknar er meðal kjósenda Samfylkingar eða rúmlega 87 prósent.

Utanríkisráðherra segir niðurstöður könnunarinnar sýna að breið samstaða sé um það meðal almennings að hefja undirbúning að aðildarviðræðum. Hún segir verst að ekki sé meirihluti fyrir því á Alþingi að hefja slíkar viðræður en að alþingismenn verði að íhuga aðild alvarlega ætli þeir ekki að vera úr takti við almenning.

Ingibjörg segir miklar áhyggjur vera hjá mörgum í atvinnulífinu af stöðu mála og því þurfi að marka framtíðarsýn þar sem krónar sé örmynt sem erfitt sé að eiga við.

Ingibjörg segir menn hljóti að vera með hagsmunamat að leiðarljósi þegar Evrópusambandsaðild er skoðuð og geti ekki verið með hælana fasta í grasinu.

Sextíu prósent framsóknarmanna styðja undirbúning aðildarviðræðna. Það kom Valgerði Sverrisdóttur, varaformanni flokksins á óvart en hún vill hefja undirbúning að viðræðum sem fyrst.

Tæp 57 prósent sjálfstæðismanna eru hlynntir undirbúningi að aðild að Evrópusambandinu. Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir það sýna skoðun að sækja eigi um aðild en því miður þá ráði hún engu þar um. Hún telur þó að skoðanakönnunin endurspegli ástandið í efnahagsmálum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×