Innlent

Von á veðurblíðu alla helgina

Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur.
Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur.

„Það eru einstaklega góðar veðurhorfur þar sem búast má við björtu veðri um nær allt land megnið af helginni," segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur á Stöð 2.

Hann segir að á morgun verði hlýjast á landinu sunnanverðu og gæti hitinn náð 20 stigum til landsins. Á sunnudag snúist það við og megi þá búast við því að hitinn fari hátt í 20 stig til landsins á Norðaustur og Austurlandi. Sigurður segir að þetta sé með betri helgum sumarsins hvað varði veðurhorfur. Á hinn bóginn sé breytinga að vænta eftir helgi með rigningu sunnantil á landinu.

„Sumarið er mun betra á sunnanverðu landinu heldur en norðantil enda þótt komið hafi góðir dagar nyrðra. Bæði hafa hlýindi verið meiri á landinu sunnanverðu sem og bjartara þegar sólskinsstundir eru skoðaðar," segir Sigurður. Hann segir að þetta minni um margt á sumarið í fyrra, sem hafi verið hægviðrasamt og hlýtt en sólarmeira syðra. Sigurður segir að heldur svalara hafi verið á Norðurlandi í ár en í fyrra. „Þetta er alveg í samræmi við veðurlagsspár snemma í vor en samkvæmt þeim mátti vænta að sumarið yrði hlýtt og nokkuð bjart á sunnanverðu landinu," segir Sigurður.

„Ekki er að sjá neinar grundvallarbreytingar á veðurlagi næstu vikna þó að búast megi við að ein og ein lægðin læðist upp að landinu, eins og vera ber," segir Sigurður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×