Innlent

Fólk verði áfram á varðbergi gagnvart ísbjörnum

Yfirlögregluþjóninn á Sauðárkróki telur fulla ástæðu fyrir fólk að vera áfram á varðbergi gagnvart hugsanlegum ísbjörnum þótt aðeins hafi fundist spor eftir sauðfé á þeim slóðum sem fólk taldi sig sjá ísbjörn í fyrrakvöld.

Umfangsmikil leit hófst í fyrrakvöld að ísbirni eftir að tvær konur sögðust þess vissar að þær hefðu séð bjarndýr við Bjarnarfell um fimmtán kílómetra norðvestan Sauðárkróks. Tvær flugvélar ásamt þyrlu, björgunarsveitir og lögregla tóku þátt í leitinni og í gærkvöldi var leitarflokkur sendur á þann stað þar sem konurnar tóku mynd af hinum meinta ísbirni.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að sendir hafi verið átta menn til þess að staðsetja þann punkt þar sem dýrið sást. Hann hafi fundist og leitað hafi verið vel á svæðinu í kring. Niðurstaðan hafi verið sú að það hafi ekki verið nein ummerki eftir bjarndýr á svæðinu. Jarðvegurinn hafi verið mjúkur og mikið af förum en engin eftir bjarndýr, bara sauðfé.

Þótt leit hafi nú verið hætt hvetur Stefán fólk til að vera á varðbergi. Hann hvetur fólk í ljósi reynslu undangenginna vikna í Skagafirði að hringja í lögreglu ef það sér eitthvað óvenjulegt. „Við höfum séð tvö dýr og það er engan veginn hægt að útiloka það að þriðja dýrið komi," segir Stefán.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×