Innlent

Stympingar við Ráðherrabústaðinn

Um 70 manns mættu fyrir framan Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu í morgun fyrir ríkisstjórnarfund og mótmæltu vinnubrögðum stjórnvalda. Tugir lögreglumanna eru á vettvangi og til stympinga kom á milli hennar og mótmælenda. Kveikt hefur verið á blysum og í hvert skipti sem ráðherra mætir á svæðið er kallað að honum ókvæðisorðum.

Sumir ráðherranna, að minnsta kosti þeir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, brugðu á það ráð að fara inn bakdyramegin.

Þá glumdi í mótmælendum: „Inn um rassgatið!"

Lögregla hefur lokað Tjarnargötunni.















Einnig hefur lögreglan girt af svæði fyrir framan Ráðherrabústaðinn en fyrir stundu reyndu mótmælendur að fara inn á það svæði. Til átaka kom þá á milli mótmælenda og lögreglu, en róaðist fljótt.

Hópurinn er nú að fara frá Ráðherrabústaðnum og gengur í átt að Alþingishúsinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×