Innlent

Nýr mannauðsstjóri Mosfellsbæjar

Mosfellsbær.
Mosfellsbær.

Sigríður Indriðadóttir hefur verið ráðin í nýtt starf mannauðsstjóra Mosfellsbæjar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bænum. Segir þar enn fremur:

„Meginhlutverk mannauðsstjóra er að taka þátt í fjölbreyttu og krefjandi starfi í framsæknu bæjarfélagi og útfæra mannauðsmál í samræmi við stefnu Mosfellsbæjar hverju sinni. Þá mun mannauðsstjóri sjá um mótun og hafa umsjón með sí- og endurmenntun á vegum bæjarins sem og veita ráðgjöf á sviði starfsmannamála til forstöðumanna stofnana. Mosfellsbær hefur nýverið lokið ítarlegri stefnumótunarvinnu sem leiddi meðal annars til þess að ákveðið var að komið yrði á fót nýrri stöðu innan bæjarins, mannauðsstjóra.

Sigríður er fædd árið 1972 og er þriggja barna móðir. Hún er grunnskólakennari að mennt með meistaragráðu í félagsvísindum með áherslu á mannauðs- og menntunarfræði frá Háskólanum í Lundi. Hún starfaði síðast sem mannauðsráðgjafi á leikskólasviði Reykjavíkurborgar, hefur starfað í sjö ár sem kennari og var forstöðumaður heilsdagsskóla Ársels og Árbæjarskóla.

„Mosfellsbær hefur nýlokið mikilli stefnumótunarvinnu í samstarfi við íbúa bæjarins. Ein af meginniðurstöðum þeirrar vinnu var að leggja til að ráðinn yrði mannauðsstjóri til bæjarins í því skyni að efla stjórnun mannauðsmála hjá Mosfellsbæ enda er bærinn stór vinnustaður með um fimm hundruð starfsmenn. Það gleður mig að fá jafnhæfa manneskju og Sigríði til starfa," segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×