Innlent

Enginn greindist með sárasótt í fyrra

Enginn einstaklingur greindist með sárasótt á Íslandi á árinu 2007. Þetta kemur fram í nýjum Farsóttarfréttum Landlæknisembættisins.

Síðastliðin ár hafa fáeinir einstaklingar greinst með sárasótt á hverju ári en nánast undantekningalítið hefur viðkomandi orðið fyrir smiti erlendis. Þetta bendir til þess, að sögn Landlæknisembættisins, að sárasótt hafi ekki náð útbreiðslu hérlendis, en í stórborgum erlendis hefur sárasótt ásamt öðrum kynsjúkdómum farið hratt vaxandi.

Eru karlmenn sem stunda kynlíf með körlum sérstakur áhættuhópur að þessu leyti. Sárasótt er fremur sjaldgæfur kynsjúkdómur um þessar mundir, tilfelli eru mjög fá hérlendis ár hvert og því eðlilegt að fjöldi tilfella sveiflist lítillega milli ára án þess að raunveruleg breyting á tíðni sjúkdómsins hafi orðið.

Hins vegar hefur fjöldi þeirra sem greinist með lekanda farið vaxandi síðastliðin ár. Lekandi er algengari sjúkdómur en sárasótt og endurspeglar því fyrr breytingar í kynhegðun manna en sárasóttin en telja má líklegt að aukin áhættuhegðun liggi að baki fjölgun lekandatilfella.

Sóttvarnalæknir segir að forsendur fyrir sárasóttarsmiti ásamt öðru kynsjúkdómasmiti virðist þannig hafa vaxið, ekki síst vegna aukins fjölda sárasóttartilfella í stórborgum erlendis og sífellt vaxandi ferðaþrár Íslendinga. Af þeim sökum vill sóttvarnalæknir hvetja landsmenn til varúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×