Innlent

Ríkisendurskoðun skilar úttekt eftir helgi

Andri Ólafsson skrifar

Búist er við að Ríkisendurskoðandi muni ljúka við stjórnsýsluúttekt sína á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fljótlega eftir helgi.

Forsætisnefnd Alþingis fól Ríkisendurskoðun að gera úttektina að beiðni fulltrúa Frjálslynda flokksins. Hún á að ná til síðustu sextán mánaða, eða frá þeim tíma þegar öll lögregla á Suðurnesjum og tollgæslan á Keflavíkurflugvelli voru sameinuð í eitt embætti auk þess sem öryggisgæsla fór undir sama hatt.

Ríkisstjórnin hefur afgreitt frumvarp dómsmálaráðherra þess efnis að embætti lögreglu og tollgæslu verði stíuð í sundur þannig að fyrrnefnda embættið heyri undir dómsmálaráðuneytið en hið síðarnefnda undir fjármálaráðherra.

Þessum hugmyndunum hefur verið harðlega mótmælt og situr frumvarp fjármálaráðherra vegna málsins fast í þingflokki Samfylkingarinnar. Þar vilja menn bíða með að taka afstöðu til málsins þar til úttekt Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×