Innlent

Fara fram á gæsluvarðhald yfir fimm vegna hnífaárásar

Lögreglan á Selfossi gerði í gærkvöld kröfu til þess að þrír af þeim fimm, sem handteknir voru í húsi í Þorlákshöfn í fyrrinótt vegna grófrar líkamsárásar, verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Laust fyrir hádegi var krafist varðhalds yfir hinum tveimur til viðbótar.

Þremenningarnir voru leiddir fyrir dómara í gærkvvöldi en hinir tveir nú rétt áðan. Niðurstöðu dómara varðandi allar beiðnirnar er að vænta í kvöld. Fórnarlambið var stungið og skorið með lagvopni en áverkarnir voru ekki lífshættulegir. Hins vegar er talið að þolandinn hafi verið í bráðri hættu á meðan á átökunum stóð því hæglega hefði getað farið verr.

Yfirheyrslur stóðu fram á nótt en engin játning liggur fyrir og er mikið misræmi í framburði fólksins að sögn lögreglu. Lögreglan nýtur meðal annars aðstoðar réttarmeinafræðings við rannsóknina, sem bæði hefur skoðað meinta árásarmenn og þolandann. Fólkið er allt pólskt og er í fastri vinnu hér á landi eftir því sem best er vitað.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×