Innlent

Framsókn hvetur ráðamenn til að reka af sér slyðruorðið

Miðstjórn Framsóknarflokksins hvetur ráðamenn þjóðarinnar til að reka af sér slyðruorðið og grípa þegar til aðgerða til að sporna við vaxandi verðbólgu í samráði við atvinnulífið, sveitarfélög, verkalýðshreyfinguna og fjármálafyrirtæki.

Þetta kemur m.a. fram í stjórnmálaályktun miðstjórnarinnar sem samþykkt var eftir vorfund hennar í dag.

Í ályktunni segir svo: "Það er með öllu ólíðandi að dugleysi hins mikla stjórnarmeirihluta verði til þess að glutra niður þeim efnahagslega árangri og kaupmáttaraukningu sem náðist í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins.

Það blasir við að peningastjórn Seðlabanka Íslands nær ekki þeim markmiðum sem lagt var upp með. Mikilvægt er að taka til alvarlegrar skoðunar hvaða kostir eru mögulegir og hvernig hægt sé að tryggja hér langvarandi stöðugleika á fjármálamarkaði sem er forsenda heilbrigðs hagvaxtar og öflugs atvinnulífs.

Nauðsynlegt er að gjaldeyrisforði og styrkur Seðlabankans sé í samræmi við umfang og þarfir íslensks atvinnulífs á hverjum tíma. Sé ekkert að gert er hætta á að fyrirtæki sjái hag sínum betur borgið með því að flytja starfsemi sína úr landi. Það myndi draga úr tekjum ríkissjóðs og auka enn á vanda hans."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×