Innlent

Dagur: Ráðning Jakobs Frímanns að vissu leyti læknamistök

MYND/Pjetur

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segist ekki munu eltast við orð sem Jakob Frímann Magnússon, nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarmála, viðhafði um hann í Mannamáli á Stöð 2 á sunnudag.

Eins og kunnugt er hefur ráðning Jakobs Frímanns í starfið verið umdeild og hefur minnihlutinn í borgarstjórn lagt fram ítarlegar spurningar sem snúa að henni. Um þær deilur sagði Jakob Frímann í Mannamáli: „Það er afar bitur læknir sem var borgarstjóri í hundrað daga sem getur ekki unnað þeim lækni sem nú situr í borgarstjórastóli að vera þar," og vísaði þar til Dags B. Eggertssonar.

„Ég ætla ekkert að eltast við orð Jakobs Frímanns en það er helst að ég geti vottað um það að ráðning hans hafi að vissu leyti verið læknamistök," segir Dagur B. Eggertsson og hlær.

Aðspurður hvort hann telji eðlilegt að starfsmaður borgarinnar tjái sig á þann hátt sem Jakob Frímann gerði segir Dagur að honum sýnist á framgöngu Jakobs Frímanns að hann sé málsvari fyrir borgarstjóra sem hafi ráðið hann á sérkjörum. „Hann gerir í raun lítið úr orðum Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra um að hann hafi verið ráðinn sem embættismaður," segir Dagur.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun að minnihluti borgarstjórnar hyggist óska eftir áliti borgarlögmanns á orðum Jakobs Frímanns. Haft var eftir Svandísi Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri - grænna, að minnihlutinn vilji fá úr því skorið hvort ummælin séu á skjön við hefðir og hugsanleg lög sem skilgreini réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×