Erlent

Ruslavandi Napólí líkt og hamfarir

Tekið verður á ruslvandamáli Napólíborgar á Ítalíu líkt og um náttúruhamfarir sé að ræða. Frá þessu greindi Silvio Berlusconi, forsætisráðherra landsins, í dag eftir ríkisstjórnarfund í borginni.

Heimavarnaliðið, sem gegnir miklu hlutverki á hamfaratímum, og herinn verða kölluð til Napólí, heimavarnaliðið til þess að stjórna flutningi ruslsins og herinn til þess að tryggja það að enginn komi í veg fyrir að ruslið verði flutt á brott. Hótaði Berlusconi hverjum þeim sem reyndi að hindra störf hreinsunarmanna fangelsisvist.

Rusl hefur hlaðist upp á götum Napólí undanfarna mánuði vegna skorts á urðunarstöðum og -stöðvum. Hefur óstjórn í borginni og áhrifum Camorra-mafíunnar í borginni verið kennt um að ekkert hefur verið gert. Kveður svo rammt að óánægju íbúa að þeir hafa brugðið á það ráð að kveikja í ruslinu á götum úti. Alls er talið að um 45 þúsund tonn af rusli séu nú á götum Napólí og víðar í Campania-héraði.

 

 

Berlusconi tilkynnti einnig eftir ríkisstjórnarfundinn að tekin yrði upp harðari stefna gegn ólöglegum innflytjendum á Ítalíu. Leggja á fram frumvarp á ítalska þinginu sem heimilar yfirvöldum að fangelsa ólöglega innflytjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×