Skoðun

Það er auðvelt að aka varlega

Sigurður Helgason skrifar um umferðaröryggi:

Verslunarmannahelgin fer í hönd og ýmislegt bendir til þess að margir verði á ferðinni um vegi landsins. Þegar þetta er skrifað lofar veðurspáin góðu og leiðir væntanlega marga af stað út á vegina.

Á síðari árum hefur þróunin verið sú, að allar helgar í júlí og fram í ágúst teljast vera umferðarhelgar. Það hefur komið glögglega í ljós að undanförnu þegar raðir hafa myndast við Hvalfjarðargöngin síðdegis og að kvöldlagi á sunnudögum. Samt hefur sú helgi sem í hönd fer sérstöðu. Aukafrídagur gefst og það hefur þau áhrif að fólk reynir að njóta hennar. En stóra spurningin er: Hvað ber helst að varast í mikilli umferð? Í hverju felst mest hætta?

Reynsla undanfarinna helga hefur sýnt okkur að framúrakstur er sá þáttur sem valdið hefur flestum slysum. Og þegar umferð er mikil og þétt hættir sumum til að grípa til hans. Alltof oft sést þar sem bílstjórar fara fram úr langri röð á vegi, og óbrotin hvít lína er á milli akreinanna. Sík lína er eingöngu þar sem ekki er öruggt að menn geti séð og metið umferð á móti. Þess vegna er slíkur framúrakstur litinn mjög alvarlegum augum af lögreglu. Og þetta varðar ekki aðeins þá sem fara fram úr, heldur ekki síður þá sem þeir eiga hugsanlega eftir að mæta og geta engan veginn komið sér til hjálpar.

Hraðakstur er hins vegar það atriði sem oftast er nefnt varðandi hættur í umferð. Víst er að lögregla beitir öllum sínum leiðum til að koma í veg fyrir hann. Bæði verða lögreglumenn við hefðbundið eftirlit og jafnframt hafa verið settar upp hraðamynda-vélar víða í vegakerfinu, sem komið hafa mörgum í opna skjöldu. Þar við bætist að öll viðurlög hafa verið hert, sektir hækkaðar og ungir ökumenn með bráðabirgðaskírteini þurfa að gangast undir akstursbann fái þeir fjóra punkta á tímabilinu sem það er í gildi. Því fylgir mikill kostnaður og óþægindi. Og sannast sagna er óþarfi að lenda í þeirri stöðu. Það gerist með því að fara eftir lögum og reglum. Og það er auðvelt. Sannið til!

Umferðarstofa óskar vegfarendum góðrar ferðar og öruggrar heimkomu.

Höfundur er verkefnastjóri á Umferðarstofu.




Skoðun

Sjá meira


×