Innlent

Skoða möguleika á frekari málshöfðun á hendur Hringrás

Frá Hringrásarbrunanum árið 2004.
Frá Hringrásarbrunanum árið 2004.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins skoðar nú möguleikann á frekari málshöfðun á hendur endurvinnslufyrirtækinu Hringrás vegna bruna á athafnasvæðis fyrirtækisins fyrir um fjórum árum. Þá vill slökkviliðið að brunavarnalögum verði breytt þannig að skýrt verði kveðið á um ábyrgð aðila í brunum sem þessum.

Nýfallinn Hæstaréttardómur í máli slökkviliðsins á hendur Hringrás var tekinn fyrir á stjórnarfundi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fyrr í mánuðinum. Í dómnum hafnaði Hæstiréttur kröfu slökkviliðsins á hendur Hringrás vegna brunans. Slökkvilið krafði fyrirtækið um rúmar 25,6 milljónir króna sem var sá kostnaður sem slökkviliðið greiddi fyrirtækinu E.T. Það fyrirtæki aðstoðaði við að slökkva í dekkjahrúgunni á athafnasvæði Hringrásar og skemmdust vinnuvélar þess af þeim sökum.

Vátryggingafélag Hringrásar hafnaði bótakröfunni þar sem dekkjahrúgan var ótryggð og fór málið fyrir dómstóla. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfu slökkviliðsins, meðal annars á þeim grundvelli að kröfuna hefði brostið lagagrundvöll eins og hún var fram sett.

Vegna þessa dóms hefur stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins falið Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðstjóra að senda umhverfisráðherra og umhverfisnefnd bréf vegna dómsins með tillögum að breytingu á lögum um brunavarnir til að tryggja að sveitarfélög verði ekki fyrir fjártjóni vegna ráðstafana slökkviliðs við björgunaraðgerðir í eldsvoða og mengunaróhöppum.

Sá geldur sem veldur
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.

Jón Viðar segir að með dómi Hæstaréttar sé í raun verið að senda þau skilaboð að það þurfi að breyta lögunum. „Það er komið inn í ákvæði margra annarra laga að sá sem veldur tjóni eigi að bera ábyrgð á því," segir Jón Viðar og vísar meðal annars til laga um varnir gegn mengun hafs og stranda. Þar komi fram að mengunarvaldur sé ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans. Jón Viðar bendir á að í flestum tilvikum borgi tryggingar aðila tjón sem þetta en dekkjarhrúgan hafi í þessu tilviki ekki verið tryggð.

 

„Aðalatriðið er að slökkvilið sem björgunaraðili á aldrei að vera í þeirri stöðu að velja lakari stöðu í málum út frá fjárhagslegum sjónarmiðum heldur á slökkviliðið fyrst og fremst að vernda hagsmuni almennings," segir Jón Viðar og bendir á að krafan á hendur Hringrás sé töluvert há og falli að óbreyttu á sveitarfélögin sem standi að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Stjórn slökkviliðsins samþykkti einnig á fundi sínum að fela lögmanni þess að fara frekar yfir niðurstöðu Hæstaréttar með tilliti til möguleika á frekari málsókn af hálfu SHS. „Það er ýjað að því í dómnum að það megi sækja þetta mál á annan máta og það erum við að skoða," segir Jón Viðar. „Ef menn telja að það sé einhver smuga á því þá munum við gera það. Þetta eru rosalegir peningar og skilaboðin þurfa að vera skýr frá okkur," segir Jón Viðar enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×