Innlent

Boðað til samstöðu við Alþingishúsið í hádeginu á morgun

Hópur hagsmunasamtaka og félaga hefur boðað til samstöðu við kjarabaráttu ljósmæðra klukkan 12.15 á morgun á Austurvelli.

Í tilkynningu frá félögunum segir að ríkisstjórnin axli ekki ábyrgð og geri þar með yfirlýsingar og fyrirheit að engu. „Stjórnarsáttmálinn er marklaust plagg. Þarfir barnshafandi kvenna skipta ekki máli og störf ljósmæðra eru lítils virði. Þó málið varði fyrst og fremst barnshafandi konur og hið nýja líf sem þær bera í skauti sér, þá snúast störf ljósmæðra um framtíð þessa lands í heild sinni. Ekkert er mikilvægara en endurnýjun þjóðarinnar. Til að hún geti orðið með eðlilegum hætti verður að tryggja þjónustu ljósmæðra nú og um aldir alda," segir í tilkynningunni.

Þar kemur enn fremur fram að þjóðin standi með ljósmæðrum og bent á að ýmsir þjóðfélagshópar hafi sent frá sér stuðningsyfirlýsingar. „Fram til þessa hafa konur á barneignaraldri verið í framvarðarsveit stuðningsfólks sem er eðlilegt. Nú er þó svo komið að þjóðin öll verður að láta í sér heyra. Öll höfum við fæðst. Mætum á Austurvöll kl. 12.15 og styðjum kjarabaráttu ljósmæðra," segir þar enn fremur.

 

Femínistafélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Flugfreyjufélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, BHM, Læknafélag Íslands, Kennarasamband Íslands, Landssamband framsóknarkvenna, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Ljósmæðrafélag Íslands standa fyrir samstöðunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×