Innlent

Pottahúðsýkingum fjölgar ört

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Húðsýkingum hefur fjölgað ört með tilkomu heitra potta sem hita upp kalt vatn. Sýkingar eru ekki nærri eins algengar í eldri pottum sem dæla beint inn heitu vatni.
Húðsýkingum hefur fjölgað ört með tilkomu heitra potta sem hita upp kalt vatn. Sýkingar eru ekki nærri eins algengar í eldri pottum sem dæla beint inn heitu vatni. MYND/GVA

Húðsýkingum vegna slæmrar umhirðu upphitaðra potta hefur fjölgað mjög hér á landi.

Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir, segir að vandamálið sé að hluta til amerískt. Mikil fjölgun hefur orðið á rafmagnshituðum nuddpottum frá Bandaríkjunum þar sem kalt vatn er hitað upp og notað til langs tíma enda tímafrekt og kostnaðarsamt að hita upp nýtt kalt vatn í pottinn.

„Fyrir utan þessar venjulegu sveppasýkingar sem við þekkjum til dæmis frá sundstöðunum þá verðum við vör við sérstakan sýkil sem virðist þrífast mjög vel þar sem er langvarandi hiti og raki," útskýrir Vilhjálmur.

Verstu tilfellunum lýsir Vilhjálmur ekki ósvipað og hlaupabólu. „Flest vægu tilvikin lagast af sjálfu sér en þetta lýsir sér oft sem rauð þrymlabólga sem byrjar sakleysislega en getur síðan komið fram sem útbreidd sýking með bólumyndun og miklum kláða um alla húðina. Í flestum tilvikum eru sýkingarnar tiltölulega meinlausar en þetta er meira hvimleitt."

Fylgjast þarf með sýrustigi og klórmagni

Vilhjálmur segir að framleiðendur pottanna séu meðvitaðir um sýkingarhættur af þessu tagi og því séu pottarnir útbúnir kröftugum sjálfshreinsibúnaði og gefi strangar leiðbeiningar um umhirðu pottanna. Hins vegar sé ábótavant að fólk fylgi leiðbeiningum, til dæmis með því huga að klórmagni og sýrustigi. Sérstaklega er þessum málum illa fyrir komið í leigusumarbústöðum þar sem leiðbeiningar á íslensku eru sjaldnast til staðar og fólk hefur litla sem enga þekkingu á umhirðu pottanna.

„Fólk kann á gömlu heitavatns pottana en það kann ekki eins vel þessa nýju. Því þurfa rétt efni að vera til staðar og nákvæmar og góðar leiðbeiningar á íslensku. Allir sem nota þessa potta verða að vita af sýkingarhættunni, gæta vel að hreinlæti og bregðast við ef sýkinga verður vart."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×