Innlent

Borgarstjórnarmeirihlutinn ætti að geta staðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Baldur Þórhallsson segir að meirihlutinn muni standa.
Baldur Þórhallsson segir að meirihlutinn muni standa.

Borgarstjórnarmeirihluti Ólafs F Magnússonar og sjálfstæðismanna ætti vel að geta starfað út kjörtímabilið, þrátt fyrir að mikið hafi gengið á í samstarfinu hingað til. Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, við Háskóla Íslands.

„Hann getur það. Einkum kannski vegna þess að maður sér ekki fyrir sér með hverjum öðrum Ólafur ætti að starfa. Maður sér ekki möguleika á öðrum meirihluta því að ég tel nú ekki miklar líkur á því að minnihlutaflokkarnir vilji taka við Ólafi eftir því hvernig fór fyrir síðasta meirihlutasamstarfi með honum," segir Baldur. Hann segist telja að minnihlutaflokkarnir séu farnir að huga að næsta kjörtímabili, því að hratt líði að næstu borgarstjórnarkosningum.

Baldur segir að stóra spurningin varðandi samstarf sjálfstæðismanna og Ólafs sé hvernig málin muni þróast þegar Ólafur lætur af embætti borgarstjóra og Hanna Birna tekur við. „Hann mun taka sæti í hinum og þessum nefndum og spurning hvernig hann mun rekast þar," segir Baldur. Hann segir að Hanna Birna þurfi að stíga mikinn línudans þegar hún feti þann vanfundna veg að samræma sjónarmið sjálfstæðismanna, borgarbúa og Ólafs F. Magnússonar.

Varðandi breytingar á skipan fólks í nefndir og ráð á vegum borgarinnar segir Baldur að almennt séð sé það eðlilegt að þeir flokkar sem myndi meirihluta hverju sinni ákveði hver sitji í nefndum á sínum vegum. „Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að ef að þeir sem sitja í nefnd fara ekki eftir stefnu flokksins séu látnir víkja," segir Baldur. Hann segist hins vegar telja að það hafi hlaupið illu blóði í menn hvernig hafi verið staðið að mannabreytingum í skipulagsráði, þegar Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur var skipt út fyrir Magnús Skúlason.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×