Innlent

Grunaður fíkniefnasali sætir ekki síbrotagæslu

Hæstiréttur staðfesti á föstudag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að hafna kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum um að maður sæti síbrotagæslu.

Lögregla hefur frá árinu 2006 ítrekað haft afskipti af manninum, nú síðast 25. ágúst þar sem hann var með 30 grömm af amfetamíni í fórum sínum. Þá er hann einnig grunaður um aðild að bílstuldi og líkamsárás. Hefur lögregla gefið út ákæru á hendur honum fyrir fíkniefnabrot.

Í kröfu lögreglu kom fram að maðurinn hefði viðurkennt að vera fíkniefnaneytandi og -sali. Samkvæmt upplýsingum virðist sem hann sé nokkuð stórtækur á því sviði, mikil umferð sé jafnan í kringum heimili hans og hann virðist vera mjög tengdur undirheimum fíkniefna. Vildi lögregla að hann sætti síbrotagæslu þar sem mikil hætta væri á að hann héldi áfram brotum gengi hann laus.

Á það féllust hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur. Í rökstuðningi dómsins segir að mörg brota mannsins séu smávægileg. Maðurinn segist neyta fíkniefna einu sinni til tvisvar í viku en bíði þess að komast í meðferð. Þá virðist brotaferill mannsins tengjast neyslu hans sjálfs en ekki fjármögnun hennar eða sölu fíkniefna. Fyrir liggi að maðurinn hafi haft ágætar tekjur undanfarið. Að öllu þessu virtu taldi dómurinn að ekki væri hægt að fallast á kröfu lögreglunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×