Innlent

Engin skólpmengun mælst í Nauthólsvík

Umhverfiseftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar segir að mengun í Skerjafirði og Nauthólsvík hafi verið undir umhverfismörkum undanfarin fjögur ár. Ekki hafi orðið vart við skólpmengun á þessum svæði á tímabilinu.

Í tilkynningu umhverfis- og samgöngusviðs er vísað til þess að Vísir, Fréttablaðið og Stöð 2 hafi að undanförnu fjallað um mögulega skólpmengun í Skerjafirði og Nauthólsvík. Umhverfis- og samgöngusvið borgarinnar vaktar strandlengju borgarinnar og segir í tilkynningunni að tekin séu sýni mánaðarlega á 11 stöðum frá apríl fram í október en vaktað er frá Brautarholti á Kjalarnesi til Nauthólsvíkur. Sýnatökustaðir séu valdir með tilliti til þess hvar fólk sé líklegt til að stunda útivist.

„Fjöldi saurkólígerla og enterókokka í strandsjó er kannaður," segir Svava S. Steinarsdóttir hjá umhverfiseftirlitinu. Ef saurkólígerlar eru til staðar í sýni í miklu magni getur það bent til skólpmengunar. Ef enterókokkar eru til staðar er það þó líklega af náttúrulegum uppruna, til dæmis frá fuglum og dýrum.

Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að sýni hafi verið tekin við Nauthólsvík, rétt við Ylströndina og í Skerjafirði, og niðurstöður hafi almennt verið mjög góðar. Síðast var tekið sýni í gær og kom það afar vel út og ekki varð vart við skólpmengun. „Ef í ljós kæmi að hætta væri á ferðum yrði það tilkynnt almenningi," segir Svava.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×