Lífið

Tættur tími framundan, segir Hallgrímur Helgason

Fyrsta skáldsaga Hallgríms Helgasonar í þrjú ár hefur mælst mjög vel fyrir á þeim stutta tíma sem er liðinn frá útgáfu hennar. Sagan nefnist 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp og fjallar um króatíska leigumorðingjann Toxic sem endar fyrir röð tilviljana á Íslandi.

Tættur tími framundan

„Tættur tími. Upplestrar, ímeilar og yrkingar. Greinaskrif, viðtöl og mótmælafundir. Þess á milli reynir maður svo að lesa kollegana og syngja með börnunum," svarar Hallgrímur rithöfundur aðspurður út í hans tíma fram að jólum.

Hvernig ferðu að því að skapa persónurnar í bókinni? „Þær koma til mín eftir mjög undarlegum og óvæntum leiðum. Leigumorðingjann Toxic hitti ég á hótelherbergi í Berlín vorið 2006. Ég bar farangurinn inn hótelganginn, opnaði hurðina að herberginu mínu og eftir tvær mínútur þar inni var persónan alsköpuð, með nafni, starfsheiti og öllu. Kannski hafði hann gist í herberginu nóttina áður, hver veit?"

„Hinar persónurnar urðu svo til eftir því sem sögunni vatt fram. Og sumar þeirra eiga sér reyndar fyrirmyndir í íslenskum raunveruleika," svarar Hallgrímur.

Hvernig tilfinning er að skila inn kláruðu handriti? „Það er alltaf góð tilfinning, en örþreytt reyndar líka. Maður er alltaf svo útkeyrður að maður getur ekkert verið að hoppa af gleði. Þess vegna held ég aldrei útgáfupartí."

„Ég skrifaði þessa sögu á tveimur tungumálum. Ensku og íslensku. Allt í allt tók það tvö og hálft ár. Og var auðvitað viss geðveiki. Undir lokin var athyglin þó öll á íslensku útgáfunni. Enska versjónin er ekki alveg fullkláruð ennþá. Ég hef ennþá smá tíma til að vinna í henni."



Kostir og gallar að vera rithöfundur?

Kostirnir eru ótal margir. Það er til dæmis alltaf gaman að eignast nýja lesendur. Gallarnir eru hinsvegar nær engir. Kannski helst þeir að maður þarf alltaf að þola sömu gagnrýnendur," segir Hallgrímur að lokum.

Sjá umsagnir um bók Hallgríms hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.