Innlent

Líkur á breytingum í ríkisstjórn fyrir áramót

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skúli segir RÚV slá á falska strengi í frétt sinni í gær.
Skúli segir RÚV slá á falska strengi í frétt sinni í gær.
Engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar á skipan ráðherra Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni. Frétt Ríkissjónvarpsins frá því í gærkvöldi er byggð á sögusögnum en slakri heimildaöflun. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Skúli Helgason framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar sendi trúnaðarmönnum í Samfylkingunni i dag.

Samkvæmt frétt RÚV er gert ráð fyrir að Björgvin G. Sigurðsson víki úr sæti viðskiptaráðherra og Ágúst Ólafur Ágústsson taki við því embætti. Þá muni Þórunn Sveinbjarnardóttir víkja úr sæti umhverfisráðherra, en ekki liggi fyrir hver muni verma það sæti. Björn Bjarnason muni víkja úr sæti dómsmálaráðherra fyrir Bjarna Benediktssyni frænda sínum. Árni Mathiesen muni láta af embætti fjármálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson taka við því. Þá segir RÚV að rætt hafi verið um að gera breytingar á bankastjórn Seðlabankans og hugsanlega líka á stjórn Fjármálaeftirlitsins.

Í tölvupósti til Samfylkingarmanna segir framkvæmdastjóri flokksins að í frétt RÚV sé fátt sannleikanum samkvæmt að öðru leyti en því að málið sé á forræði formanna stjórnarflokkanna og líkur séu á breytingum áður en nýtt ár gangi í garð.

Ekki náðist í Geir H. Haarde formann Sjálfstæðisflokksins í dag. Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, tekur undir með Skúla og segir að málið sé á forræði formanna stjórnarflokkanna. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×