Innlent

Sleginn með stól vegna deilna um gítar

MYND/Ingólfur

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á annan mann og slá hann meðal annars með stól. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambinu um hundrað þúsund krónur í bætur.

Maðurinn sem ákærður var kom í íbúð í október í fyrra til þess að fá lánaðan gítar. Hafði hann fengið leyfi fyrir því en maður sem var íbúðinni virðist ekki hafa vitað af því. Kom því til deilna og átaka á milli þeirra.

Hinum ákærða er gefið að sök að hafa slegið hinn manninn í andlitið og líkama og barið hann með stól í höfuðið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og marðist nokkuð. Ákærði játaði að hafa kýlt manninn en neitaði að hafa slegið hann með stól. Út frá framburði vitna var hann hins vegar sakfelldur fyrir þann hluta.

Segir í dómnum að þótt ákærði eigi sér ekki sérstakar málsbætur, þar eð viðbrögð hans við afskiptum kæranda voru miklu ofsafengnari en tilefni var til, þá verði að líta til þess við ákvörðun refsingar að fórnarlambið átti nokkurn hlut að upphafi átakanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×