Innlent

Virkjanir í Þjórsá komnar á beinu brautina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti einróma í gærkvöldi að setja Hvamms og Holtavirkjun inn á aðalskipulag með þeim rökum að þetta væri sá virkjunarkostur sem hefði hvað minnst umhverfsáhrif virkjana á Íslandi. Þar með eru tvær af þremur umdeildum Þjórsárvirkjunum komnar á beinu brautina fyrir Landsvirkjun.

Í samþykkt Skeiða- og Gnúpverjahrepps um Hvamms og Holtavirkjun er vísað til niðurstöðu verkefnisstjórnunar Rammaáætlunar og niðurstöðu umhverfismats þess efnis að þessi virkjunarkostur hafi hvað minnst umhverfsáhrif virkjana á Íslandi. Engin staður með hátt minjagildi raskist og engar náttúruminjar á náttúruminjaskrá muni glatast vegna framkvæmdanna. Þá hafi virkjanirnar ekki afgerandi áhrif á afkomu laxfiska í Þjórsá.

Er það mat sveitarstjórnar að skili mótvægisaðgerðir þeim árangri sem gert sé ráð fyrir verði helstu umhverfisáhrif virkjananna sjónræn, þ.e. breytt ásýnd svæðisins vegna lóna, stíflugarða og minnkaðs rennslis árinnar um hluta virkjanasvæðisins. Hyggst sveitarstjórnin tryggja að við frekari hönnun framkvæmdanna verði dregið úr sjónrænum áhrifum þeirra, eins og frekast er unnt.

Með þessari samþykkt má segja að helstu hindrun í vegi þess að Landsvirkjun geti ráðist í tvær af þremur umdeildum virkjunum í neðri Þjórsá, hafi verið rutt úr vegi. Þótt umhverfisráðherra eigi eftir að staðfesta aðalskipulagið hefur ráðherrann í raun ekki vald til að leggjast gegn samþykkt sveitarstjórnar hafi hún verið gerð í samræmi við lög, og þótt iðnaðarráðherra þurfi einnig að veita virkjunarleyfi er sú afgreiðsla talin nánast formsatriði á þessu stigi málsins. Landsvirkjun á þá aðeins eftir að fá samþykki Flóahrepps fyrir Urriðafossvirkjun til að tryggja sér allar virkjanirnar þrjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×