Innlent

Tamningamaður grunaður um vanhirðu hrossa

Héraðsdýralæknirinn á Akureyri rannsakar mál tamningamanns í hesthúsinu við Hringsholt í Svarfaðardal en hann er sakaður um að hafa vanrækt hross í hans umsjá. Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmis, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um kæru í málinu en lögfræðingar Matvælastofnunar eru með það til rannsóknar.

Heimildir Vísis herma að ítrekað hafi verið kvartað yfir lélegum aðbúnaði hjá tamningamanninum og munu hrossin hafa verið illa haldin. „Það kom ábending um vanfóðrun og aðbúnað og við nánari skoðun þótti ástæða til aðgerða sem var gripið til á föstudaginn," segir Ólafur.

Að hans sögn snéru þær aðgerðir að því að hrossin voru fóðruð og þau hross sem ekki voru í eigu mannsins en voru hjá honum í tamningu voru sótt af eigendum sínum.

Ólafur bætir því við, að ef tekin verði ákvörðun um ákæru í málinu, verði það Matvælastofnun sem muni leggja fram kæru í málinu, þar sem dýralæknaembættið heyrir nú undir hana.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×