Innlent

Sundlaugarperri fékk sex mánaða skilorðsbundinn dóm

Erlendur karlmaður sem varð uppvís að kynferðislegri áreitni í garð fjölda ungra stúlkna í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar í vetur hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta.

Þar segir að maðurinn hafi verið í farbanni vegna málsins. Hann var auk þess dæmdur til að greiða hverri stúlku 100 þúsund krónur í miskabætur. Ellefu kærur voru lagðar fram gegn manninum í upphafi og var dæmt í níu þeirra.

Móðir einnar stúlkunnar segist í samtali við Víkurfréttir ekki vera sátt við dóminn og segir hann vægan. Hún segir bæturnar hafa átt að renna til Blátt áfram, samtaka um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Þar sem sakborningur sé ekki borgunarmaður fyrir bótunum verði að sækja þær til ríkissjóðs.

Það þýði hins vegar lögfræðikostnað upp á 20 - 30 þúsund krónur. Bæturnar sé einungis hægt að fá inn á lokaða bankabók sem stúlkan geti ekki leyst út fyrr en við 18 ára aldur. Stúlkan er 12 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×