Skoðun

Hættu nú, Össur!

Haraldur Sturlaugsson skrifar
Umræðan

Ríkisstjórnarsamstarfið

Ég las í Fréttablaðinu í morgun um blogg virðulegs iðnaðarráðherra og má segja að við lesturinn varð ég verulega hugsi. Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn að ná árangri þegar stöðugt er skotið úr launsátri á samherja? Ráðherrann hneykslast mjög á ferð menntamálaráðherra til Kína og telur hana vera í fjölmiðlastríði við forsetafrúna. Þetta lýsir þrennu eins og Jón Baldvin Hannibalsson komst svo oft að orði:

Í fyrsta lagi er það svo að „margur heldur mig sig" og vissulega er Össur landsfrægur fyrir ást sína á sviðsljósinu og tekst þar oft vel upp!

Í öðru lagi að Össur hefur greinilega aldrei stundað hópíþróttir en það hefur menntamálaráðherra gert og hún veit að það er eitt sem gildir í þeim efnum: Einn fyrir alla og allir fyrir einn! - Samhug og samstöðu er ólýsanlega gaman að upplifa og þá bæði í blíðu og stríðu! Þessi samhugur getur fleytt mönnum yfir ótrúlegustu hjalla!

Í þriðja lagi lýsa þessar fáu línur Össurar að hann er greinilega ekki í liðsheildinni í ríkisstjórninni, stendur ekki með samráðherrum, er tilbúinn til að ætla þeim hégómlegar hvatir.

Hvernig getur svo þjóðin treyst því að menn geti siglt í gegnum erfiðar efnahagslægðir með svona óhreinindi í farteskinu? - Hvernig haldið þið að handboltalandsliðinu okkar vegnaði ef þeir væru að blogga á nóttinni hver gegn öðrum, Óli Stef. hneykslaðist t.d. á Loga vegna húðflúrsins eða einhvers svipaðs sem ekki skiptir máli?

Össur, hættu nú þessari vitleysu og snúðu þér að liðsheildinni! Ef ríkisstjórnin ætlar að ná árangri verður að vinna saman að sameiginlegum markmiðum og sýna samstarfsfólki sínu lágmarks virðingu. Taktu landsliðsheildina þér til fyrirmyndar - ef þú ætlar að vera áfram með í liðinu! - Össur, við þurfum á þér að halda - í alvöru!

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri á Akranesi.

 




Skoðun

Sjá meira


×