Innlent

Spá engum vexti í dagvöruverslun á seinni hluta árs

MYND/Heiða

Gert er ráð fyrir að raunvöxtur í dagvöruverslun verði um tvö prósent á þessu ári og að á síðari hluta ársins verði enginn vöxtur miðað við árið í fyrra á föstu verðlagi.

Þetta sýnir ný samantekt sem unnin er í samstarf Rannsóknarseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Síðustu misserin hefur velta dagvöruverslunar vaxið um sem nemur 5-10 prósent á föstu verðlagi. Ef marka má verðbólguhorfur má hins vegar gera ráð fyrir því að töluverður vöxtur verði í smásöluverslun á breytilegu verðlagi eins og segir í samantektinni.

Þá sýnir skoðanakönnun meðal stjórnenda í verslun að þeir telja flestir að vöxtur í veltu á síðari helming þessa árs verði álíka og í fyrra. Þá telur þriðjungur stjórnenda í verslun að starfsmönnum muni fækka á seinni helming ársins.

Samantekt stofnananna tveggja verður framvegis birt á hálfsárs fresti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×