Innlent

„Nú þarf að spyrna við fæti“

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði sitjandi ríkisstjórn hafa tekið við góðu búi er hann flutti hátíðarávarp sitt á Austurvelli um klukkan 11. Ráðherra ræddi um hræringar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum og lánsfjárkreppu. Rótgrónar og virtar fjármálastofnanir heimsins hefðu lent í miklum vanda undanfarin misseri og jafnvel orðið gjaldþrota.

Geir sagði hræringarnar hafa valdið hækkun á heimsmarkaðsverði sem virkaði sem skattur á Íslendinga sem yrðu að gera sitt til að laga sig að breyttum aðstæðum. „Nú kemur sér vel að hafa búið í haginn á síðustu árum. Ríkissjóður er nánast skuldlaus og lífeyrissjóðakerfið sterkt," sagði hann og bætti því við að Alþingi hefði veitt ríkisstjórninni heimild til erlendrar lántöku til að treysta gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Geir sagði fátt verðmætara trausti og trúverðugleika, hvort sem væri í samskiptum þjóða eða stórfyrirtækja. Íslendingar væru vel búnir undir bakslag en aðgerða væri þó þörf: „Nú þarf að spyrna við fæti, nú verðum við að draga úr notkun eldsneytis með minni akstri og notkun annarra orkugjafa," sagði ráðherra og tók það fram að farartæki knúin óhefðbundnum orkugjöfum nytu þegar skattaívilnana.

Kreppuárið 1969 erfiðast

„Þó að lífskjör versni um stundarsakir eru þau samt mun betri en þau hafa verið undanfarin ár," sagði forsætisráðherra. Hann sagði að Íslendingar gengju á vit framtíðarinnar með von og vissu um það sem þeirra biði. Þá nefndi hann kreppuárið 1969 og aflabrestinn sem nær sligaði þjóðina. Sagði Geir það erfiðustu kreppu sem þjóðin hefði mætt en með harðfylgi hefði hún komist út úr erfðileikunum og í hönd hefðu farið mörg góð ár. Svo yrði einnig nú.

Talaði ráðherra um að góðir kjarasamningar hefðu tekist á vordögum en sneri næst tali sínu að náttúruhamförum í Ölfusi í lok maí sem íbúar þar hefðu tekist á við af æðruleysi. Þegar hefði verið tryggt fjármagn til að bæta tjón þeirra sem fyrir því urðu. Ráðherra þakkaði viðbragðsaðilum sérstaklega fyrir störf þeirra á skjálftasvæðunum og nefndi þar Almannavarnir, lögreglu, björgunarsveitir og heilbrigðisstarfsfólk.

Geir lauk ávarpi sínu á ljóði Jakobs Jóh. Smára, „Vor þjóð er margþætt" og að því loknu steig fjallkonan á stokk og flutti ljóð en það var Elma Lísa Gunnarsdóttir sem tók að sér hlutverk fjallkonunnar í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×