Innlent

Landhelgisgæslan í ísbjarnaleit í dag - fundað um birnu í ráðuneyti

MYND/Valli

Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í eftirlitsflug um Hornstrandir í dag til þess að svipast um eftir ísbjörnum á svæðinu. Frá þessu greinir í tilkynningu frá Gæslunni. Ráðherra fundar sem stendur með yfirdýralækni dýragarðsins í Kaupmannahöfn vegna ísbjarnarins á Hrauni sem felldur var í gær.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir enn fremur að ísbjarnaeftirlitið í dag fari fram í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun. Ætlunin er að fljúga aftur yfir svæðið á næstu dögum og eins verður hefðbundnu ískönnunarflugi á Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, haldið áfram.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og fulltrúar frá Umhverfisstofnun funda nú með Carsten Gröndahl, yfirdýralækni í dýragarðinum í Kaupmannahöfn, um málefni hvítabirnunnar sem felld var við Hraun á Skaga í Skagafirði í gær.

Eins og kunnugt er kom Gröndahl með búr hingað til lands í gær til þess að reyna að klófesta birnuna í búr og var ætlunin að reyna að koma henni aftur til Grænlands. Það tókst hins vegar ekki. Að sögn Guðmundar Harðar Guðmundssonar, upplýsingarfulltrúa umhverfisráðuneytisins, verður farið yfir málið á fundi ráðherra og Gröndahls og þann lærdóm sem draga má af því.

Þórunn sagði í gær farið yrði málið gaumgæfilega og að það kæmi jafnvel til greina að smíða búr hér á landi sem yrði til taks ef atvik sem þessi koma aftur upp. Umræður um viðbrögð við svona málum í framtíðinni eru algjörlega á byrjunarstigi að sögn Guðmundar enda skammt liðið frá því að björninn var felldur.

Þá hafa vaknað spurningar um það hvort ábúendur á Hrauni fái það bætt ef í ljós kemur á næsta ári að skaði hafi orðið á æðarvarpinu þar sem björninn hafðist við. Guðmundur Hörður sagði of skammt frá liðið til þess að svara nokkru um það en þetta væri eitt þeirra mála sem farið yrði yfir á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×