Innlent

Fimmtán prósent njóta félagslegrar þjónustu í Reykjanesbæ

Siv Friðleifsdóttir spurði félagsmálaráðherra um félagsþjónustu.
Siv Friðleifsdóttir spurði félagsmálaráðherra um félagsþjónustu. MYND/Pjetur

Fimmtán prósent íbúa í Reykjanesbæ og fjórtán prósent íbúa í Reykjavík og á Ísafirði njóta félagslegrar þjónustu. Þetta kemur fram í svari Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Siv spurði hversu stórt hlutfall íbúa einstakra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu nyti félagslegrar þjónustu sveitarfélags síns og jafnframt spurði hún um sama hlutfall í nokkrum sveitarfélögum úti á landi.

Tólf prósent íbúa á Akureyri og Sveitarfélaginu Hornafirði nutu félagslegrar þjónustu og tíu prósent í Árborg. Þá nutu sjö prósent félagslegrar þjónustu í Kópavogi, Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi og sex prósent í Garðabæ og á Fljótsdalshéraði. Lægst var hlutfallið í Mosfellsbæ en þar nutu fimm prósent íbúa félagsþjónustu sveitarfélags síns. Viðmiðunarár sveitarfélaganna er ýmist 2006 eða 2007.

Með félagslegri þjónustu í svarinu var átt við ferðaþjónustu fyrir aldraða og fatlaða, félagslegar íbúðir, fjárhagsaðstoð og ráðgjöf, heimaþjónustu og félagslega liðveislu og húsaleigubætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×