Innlent

Fjármálaráðherra: Skuld við Impregilo kann að vera óveruleg

MYND/GVA

Fjármálaráðherra segir að skuld ríkisins við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo kunni að vera óveruleg og því hafi ekki verið gert upp við fyrirtækið. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna.

Steingrímur vísaði til dóms Hæstaréttar í fyrrahaust þar sem fram kom að Impregilo hefði ekki borið að greiða opinber gjöld vegna starfsmanna á vegum erlendra starfsmannaleigna sem störfuðu að uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar. Fram hefur komið í fréttum að Impregilo hafi höfðað mál á hendur ríkinu vegna málsins þar sem krafist er endurgreiðslu upp á 1,2 milljarða króna auk dráttarvaxta sem nemi milljón á dag. Var skuld ríkisins farin að nálgast tvo milljarða króna nýverið.

Steingrímur spurði meðal annars hverju það sætti að skuldin hefði ekki verið gerð upp eða að minnsta kosti borgað inn á hana til þess að draga úr kostnaði vegna dráttarvaxta. Steingrímur spurði einnig hvers vegna málið hefði verið tekið úr höndum ríkisskattstjóra sem hefði hafið uppgjör á málinu ef marka mætti fréttir fjölmiðla.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði að dómur Hæstaréttar hefði ekki gengið út á endurgreiðslu skatta og talið væri að Impregilo bæri ábyrgð á einhverjum hluta skattgreiðslna fyrir starfsmennina. Málið væri nú fyrir dómstólum og svo kynni að vera að skuld ríkisins við Impregilo væri óveruleg eða jafnvel lítil sem engin. Óvarlegt væri að rasa um ráð fram meðan málið væri fyrri dómstólum. Enn fremur sagðist ráðherra ekki hafa tekið málið úr höndum ríkisskattstjóra en málið væri í góðum farvegi.

Steingrímur sagðist telja að ríkið væri með þessu að taka mikla áhættu og gæti farið hörmulega út úr málinu. Vissulega væri það svo að það kynnu enn að vera álitamál en hér gæti verið í uppsiglingu löðrungur ef ekki kjaftshögg á ríkissjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×