Innlent

Sáttafundi í kjaradeilu ljósmæðra lokið - Verkfall hefst í kvöld

Sáttafundi í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins lauk fyrir stundu. Fundinum lauk án árangurs og því hefst önnur verkfallslota ljósmæðra á miðnætti í kvöld og stendur hún í tvo daga. Ljósmæður lögðu niður vinnu í tvo sólarhringa í seinustu viku.

,,Því miður hefst verkfall að nýju á miðnætti," segir Bára Hildur Jóhannsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.

Þrátt fyrir að niðurstaða hafa ekki náðst í deilunni ítrekar ríkissáttasemjari í fréttatilkynningu að viðræðunum hafi ekki verið slitið.

Ljósmæður vilja að menntun þeirra verið metin til launa til samræmis við aðrar stéttir hjá ríkinu.

,,Staðan er óbreytt. Okkur var falið ákveðið heimaverkefni ef svo má að orði komast. Við munum funda með okkar baklandi fyrir fundinn á föstudaginn," segir Bára Hildur. Ekki hefur verið ákveðið hvenær sá fundur verður haldin.

Sáttasemjari hefur falið samningsaðilum hvorum um sig að fara yfir málið og nýr fundur er boðaður klukkan 15 næst komandi föstudag.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×