Innlent

Staðfestir gæsluvarðhald yfir stöðumælaþjófi

MYND/KK

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir rúmenskum karlmanni sem grunaður er um þjófnað úr stöðumælum hér á landi ásamt félaga sínum. Skal hann sæta gæsluvarðhaldi fram á miðvikudag.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum segir að mennirnir hafi komið nýlega til landsins og hafi sérhæft sig í þjófnaði úr stöðumælum. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli gaf lögreglu þær upplýsingar að menn þessir hefðu haft meðferðis ýmis verkfæri þegar þeir komu til landsins.

Lögreglan fylgdist með ferðum mannanna en þeir fóru á milli verslana í miðbænum og skiptu smámynt. Þeir voru svo handteknir við þjófnað úr stöðumæli við Garðastræti síðastliðinn miðvikudag og við húsleit á dvalarstað mannanna fann lögregla ýmis verkfæri, slípirokk, skurðarskífur, lítinn slaghamar og meitil, ásamt fjármunum. Þá fannst einnig stafræn myndavél en í henni voru margar myndir sem teknar höfðu verið af stöðumælum víðs vegar um Reykjavík.

Hinn grunaði neitar að tjá sig um sakargiftir en félagi hans hefur viðurkennt að hafa brotist inn í stöðumælinn við Garðarstæti og segir hinn ekkert hafa komið nálægt því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×