Innlent

Samið við einkaaðila um augasteinsaðgerðir

Samninganefnd heilbrigðisráðherra hefur gert samning við hlutafélagið Sjónlag og einkahlutafélagið Lasersjón um augasteinsaðgerðir og ættu biðlistar vegna þeirra að heyra sögunni til á næsta ári. Samningar voru undirritaðir í framhaldi af útboði. Fram kemur á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins að alls sé um að ræða 1.600 augasteinsaðgerðir næstu tvö árin.

„Á undanförnum misserum hefur Landsspítalinn ekki annað eftirspurninni og bið eftir augasteinsaðgerðum óviðunandi. Með samningunum við Sjónlag og Lasersjón er ætlunin að fjölga aðgerðunum hér á landi úr 1.800 í 2.600 á ári eða um rúm 44%. Á næsta ári ætti biðlisti eftir augasteinsaðgerðum þar með að geta heyrt sögunni til," segir einnig á heimasíðunni.

Ský á augasteini er einn algengasti augnsjúkdómur hér á landi eins og víðast hvar annars staðar. Hann er jafnan stigvaxandi og gengur ekki til baka. Það hindrar sjón á svipaðan hátt og móða á milli glerja og getur valdið blindu ef ekkert er að gert. Meðferð á öðru auga telst ein aðgerð og er áætlað að á Íslandi þurfi um 2.400 aðgerðir á ári.

„Samningurinn við Sjónlag markar tímamót þar sem sjúklingar sem þurfa að fara í augasteinsaðgerð geta nú í fyrsta sinn leitað til augnlæknastofu utan sjúkrahúsanna, en fram að þessu hafa einungis læknar á Landsspítala, St. Jósefsspítala - Sólvangi og Sjúkrahúsi Akureyrar veitt þessa þjónustu," segir enn fremur á heimasíðunni.

Heildarkostnaður vegna samnings Sjónlags og samninganefndar heilbrigðisráðherra er áætlaður um 62 milljónir króna og hlutdeild TR 52 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×