Innlent

Miltisbrandur í Garðabæ - íbúar með lokaða glugga

SB skrifar
Svæðið sem miltisbrandurinn fannst á er innsiglað.
Svæðið sem miltisbrandurinn fannst á er innsiglað.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og lögreglan rannsakar nú dýrabein sem fundust í húsgrunni í Garðabæ. Grunur leikur á miltisbrandssmiti. Íbúi undrast samskiptaleysi af hálfu lögreglunnar. Hann hefur gluggana lokaða til vonar og vara.

"Það er ekkert búið að tala við okkur en sem betur fer stendur vindáttin frá okkur. Við förum ekkert en mér finnst undarlegt að manni hafi ekki verið ráðlagt að loka gluggum eða slíkt," segir Sævar Árnason sem býr við hliðina á lóðinni þar sem dýrabeinin fundust.

Hann lýsir ástandinu á Löngufitjum svona:

"Lögreglan er búin að girða af svæðið. Þeir hafa fundið fullt af beinum og rétt í þessu sá ég að maður í gúmmígalla með súrefniskút innsiglaði bein í eiturefnafötu til að rannsaka."

Sævar segir að það hafi alltaf verið bannað að byggja á lóðinni út af hættu á miltisbrandi. "Þarna var gamalt bændabýli og mikið slátrað og grafið. Það var bannað að hreyfa við túninu í áratugi en nú síðastliðið ár voru þessar lóðir boðnar út og menn fóru að grafa fyrir húsgrunnum," segir Sævar.

Í fyrra fundust einnig bein á öðrum stað í hverfinu. Sævar segir þennan beinafund töluvert frá því sem þau bein fundust.

Spurður hvort íbúum stafi hætta af hugsanlegum miltisbrandi segist Sævar undrast samskiptaleysi af hálfu lögreglu og slökkviliðs.

"Ég hef gluggana allavega lokaða. Allur er varinn góður."


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×