Innlent

Gruna Olís ekki um bensínstríð

SB skrifar
Úr áróðurspóstinum sem gengur nú manna á millum.
Úr áróðurspóstinum sem gengur nú manna á millum.
Gunnar Karl Guðmundsson, framkvæmdastjóri Skeljungs, segir tölvupóst þar sem fólk er hvatt til að sniðganga N1 og Shell fullan af rangfærslum. Hann grunar Olís ekki að standa á bak við hugsanlegt bensínstríð.

"Þessi póstur er fullur af rangfærslum og greinilega skrifaður í miklum tilfinningahita," segir Gunnar Karl. "Það eru ekki seljendurnir sem eru að hagnast á hækkun olíuverðsins heldur framleiðandurnir. Þetta er mjög erfitt ástand þegar þessar hækkanir dynja yfir fyrir alla."

Í tölvupóstinum eru neytendur hvattir til að hætta viðskiptum við N1 og Shell til að koma af stað verðstríði, neytendum til hagsbóta. Ekki kemur fram hver stendur á bak við tölvupóstinn en athygli vekur að neytendur eru ekki hvattir til að hætta viðskiptum við þriðja olíurisann hér heima - Olís.

Spurður hvort hann gruni hvort Olís standi á bak við póstinn hlær Gunnar. "Nei, ég trúi ekki að menn leggist svo lágt. Ég held að ef þú skoðar orðalagið og stílinn þá er þetta einfaldlega einhver sem hefur sest fyrir framan tölvuna og látið góssa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×