Innlent

Fornleifauppgröftur við Alþingishúsið

Uppgröftur

Til stendur að fornleifauppgröftur hefjist 1. júlí á svokölluðum Alþingisreit við Tjarnargötu, Vonarstræti og Kirkjustræti. ,,Mjög merkar leifar hafa fundist á svæðinu í kringum reitinn. Þarna er hugsanlega að finna minjar frá landnámsárunum. Jafnvel frá miðöldum en lítið hefur fundist frá því tímabili," segir Garðar Guðmundsson hjá Fornleifastofnun Íslands.

Í grennd við reitinn hafa fundist minjar um elstu byggð í Reykjavík og er Landnámsskálinn við Aðalstræti merkust þeirra. ,,Þetta er gríðarlega stórt verkefni," segir Garðar. Á bilinu 20-30 einstaklingar munu væntanlega starfa við uppgröftinn og vegna skamms fyrirvara þarf að öllum líkindum að leita eftir fræðimönnum út fyrir landsteinanna.

Ógilda þurfti fyrra útboð vegna verksins og verður það boðið út aftur á mánudaginn. Í útboðsgögnum er gert ráð fyrir að fornleifauppgröfturinn hefjist 1. júlí.

Framkvæmdirnar verða tvískiptar og unnið að uppgröftinum í sumar og á næsta ári. Áætlað er að byggingarframkvæmdir hefjist í haust á því svæði sem verður kannað af fornleifafræðingum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×