Innlent

Landspítalinn rekur láglaunastefnu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM.
Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM.

Það er rekin láglaunastefna á Landspítalanum, að sögn Guðlaugar Kristjánsdóttur, formanns Bandalags háskólamanna. „Við sjáum þegar við horfum svona heilt yfir kjarasamninga við ríkið, að þá eru svona dalir eins og Landspítalinn og félags- og menntamál. Þetta eru svona þeir málaflokkar og þau ráðuneyti sem virðast ekki hafa neitt á milli handanna til að umbuna starfsfólki," segir Guðlaug. Hún segir að öðru gildi þegar um sé að ræða ýmsa aðra málaflokka. Þá virðist allt vera í lagi. „Heilbrigðismál og félagsmál, þetta er bara eitthvað sem má ekki borga fyrir," segir Guðlaug.

Guðlaug segir að Landspítalinn sé á þanmörkum hvað varði mönnun. „Það vantar alltaf fólk," segir Guðlaug. Þeir sem fyrir eru verði þreyttari fyrir vikið. Hún segir yfirvofandi atgervisflótta úr mörgum heilbrigðisstéttum og því séu kjaradeilur orðnar harðari en þær voru. Hún segir að það vanti endurnýjun í starfstéttir á Landspítalanum og nefnir sem dæmi ljósmæður, hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara. Þrátt fyrir að deildir sem kenni heilbrigðisgreinar í háskólum rýmki á fjöldatakmörkunum séu sífellt færri nemendur að sækja um nám. "Fólk sér ekki hag í að sækja sér þessa menntun," segir Guðlaug. Hún bendir jafnframt á að umsóknir inni í stéttarfélög sýni að sífellt fleiri farandstarfsmenn sæki um "Ég hef ekkert á móti því í sjálfu sér en þetta er þróun sem verður og fólk staldrar stutt við," segir Guðlaug. Hún spyr hvort Landspítalinn vilji fá fólk sem staldri stutt við en fari svo heim til sín aftur eða í önnur störf eftir nokkra mánaða þjálfun í starfi.

Guðlaug segir að heilbrigðisstéttir séu búnar að semja en um hafi verið að ræða skammtímasamninga sem verði aftur samningar lausir í vor. Þá þurfi að gera heildstæðari breytingar á samningunum. Það dugi ekki að semja einungis um prósentubreytingar á launatöflu þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×